Hvað er á himni?

Heimar og verur á himni

Himinninn var búinn til úr hauskúpu Ýmis. Fjórir dvergar halda honum uppi; þeir heita Austri, Vestri, Norðri og Suðri. Á himninum eru margir bústaðir og miklar hallir.

Askur Yggdrasils

Heimurinn stendur í skugga heimstrés sem norrænir menn nefndu Ask Yggdrasils. Þessi risavaxni askur heldur öllum heimi saman. Rætur hans ná niður í neðstu undirheima en trjákrónan upp yfir hæstu himna.

Askurinn hefur þrjár miklar rætur. Ein liggur hjá Hvergelmi í undirheimum, ein hjá Mímisbrunni sem er í Jötunheimum og ein hjá Urðarbrunni, en þar er líka Iðavöllur, helgasti staður goðanna.

Ratatorskur

Ratatorskur er íkorni sem hleypur upp og niður heimstréð, Ask Yggdrasils. Hann er eins konar sendiboði sem er á stöðugri ferð á milli efstu greina og neðstu rótar asksins mikla.

Íkorninn hefur það hlutverk að bera alls kyns skammir og óvildarorð á milli Níðhöggs, drekans mikla sem á heima í undirheimum við brunninn Hvergelmi, og arnarins sem situr efst í greinum asksins. Á milli augna arnarins situr Veðurfölnir, en það er haukur.

Urðarbrunnur

Urðarbrunnur, sem er brunnur örlaganna, er á himni. Þar dvelja þrjár nornir sem ráða örlögum manna og goða, Urður, Verðandi og Skuld. Samkvæmt sumum heimildum er Skuld líka valkyrja. Við Urðarbrunn er Iðavöllur, helgasti staður goðanna. Þar mæta goðin til fundar á hverjum degi.

Vanaheimur

Ekki er alveg ljóst hvar Vanaheimur er, en væntanlega hefur hann verið í nágrenni við Ásgarð, það er á himnum.

Njörður, sem var æðstur Vana, bjó í Nóatúnum, en Skaði, kona hans og dóttir Þjassa jötuns, í Þrymheimum. Freyja dóttir Njarðar, á heima í höll sem Sessrúmnir heitir og er á Fólkvangi.

Álfheimur

Bústaður ljósálfa er fyrir ofan Ásgarð, það er á öðrum himni sem Snorri nefnir Andlang. Þar ríkir vanagoðið Freyr.

Ásgarður

Ásgarður er "í miðjum heimi" á fyrsta himni sem Snorri Sturluson kallar svo, það er beint fyrir ofan hauskúpu Ýmis.

Iðavöllur er í Ásgarði, en Æsir þurfa samt að ríða Bifröst dag hvern til að komast þangað. Á Iðavelli er efsta rót asksins mikla og Urðarbrunnur. Þar er líka mikið hús með sætum fyrir öll goðin og kalla menn það Glaðsheim. Ásynjur hafa annað glæsihús er Vingólf heitir.

Óðinn virðist eiga sér marga bústaði í Ásgarði. Hann er húsbóndinn í Valhöll þar sem Einherjar dvelja og valkyrjur þjóna þeim til borðs. En Óðinn á einnig Valaskjálf. Þar er hásætið Hliðskjálf en úr því sér hann um allan heim.

Sum hinna goðanna eiga sér eigin bústaði. Þór býr á Þrúðvangi og heitir höll hans Bilskirnir. Heimdallur býr í Himinbjörgum þar sem Bifröst nær upp til Ásgarðs. Baldur, sonur Óðins, á heima á Breiðabliki, en Forseti, sonur hans og Nönnu Nepsdóttur, á Glitni. Ullur, sonur Sifjar og stjúpsonur Þórs, býr í Ýdölum.

Frigg, kona Óðins, býr í Fensölum, en önnur ásynja, Saga, á Sökkvabekk.

Bifröst

Norrænir menn töldu að goðin færu á milli Miðgarðs, Iðavalla og Ásgarðs um Bifröst eða Ásbrú, það er upp og niður regnbogann.

Það sem mönnum sýnist vera rautt í regnboganum er eldur sem kemur í veg fyrir að hrímþursar og bergrisar komist til Ásgarðs.

Gimlé

Víðbláinn kallar Snorri þriðja himininn, og þar er Gimlé. Þar búa einungis ljósálfar, en eftir Ragnarök, þegar himinn og jörð farast, fá goðin sem eftir lifa að eiga þar heima. Askurinn mikli nær þó enn lengra upp og þar efst situr örninn mikli.